flugfréttir

Aldur flugvéla: Hvenær er flugvél orðin of gömul?

- Eru gamlar flugvélar óöruggari en þær nýju?

11. mars 2017

|

Frétt skrifuð kl. 15:34

Meðalaldur flugvéla í Bandaríkjunum eru 15 ár en meðalaldur í heiminum eru 10 ár

Flugvélar eldast eins og önnur farartæki og allir aðrir hlutir í heiminum en þótt mörg flugfélög panti reglulega nýjar þotur þá hefur næstum því helmingur allra farþegaþotna í heiminum náð 15 ára aldri.

Fjölmörg flugfélög hafa sl. ár unnið að því að endurnýja flugflota sinn með því að panta nýjar þotur en ástæðan er ekki sú að þær séu orðnar of gamlar heldur sú að nýjar farþegaþotur eru mun sparneytnari með tilkomu nýrra hreyfla.

Íslensk flugfélög á borð við WOW air og Icelandair hafa bæði bætt við flugvélum í flota sína sl. ár en margir hafa velt því fyrir sér hvers vegna Icelandair hefur keypt notaðar vélar sem hafa náð 20 ára aldri á meðan WOW air hefur verið að panta nýjar þotur beint frá framleiðanda.

Breiðþotur Icelandair og WOW Air á Keflavíkurflugvelli

Þegar íslenskir fjölmiðlar hafa birt fréttir varðandi notaðar flugvélar sem Icelandair hefur bætt við í flotann hafa margir skrifað ummæli við þær fréttir þar sem aldur vélanna ber á góma.

Sumir telja að það hljóti að vera öruggara og betra að ferðast í nýrri flugvél sem er splunkuný „úr kassanum“ heldur en að ferðast með flugvél sem er orðin gömul og komin til ára sinna.

Þrátt fyrir að ný flugvél sé alltaf ný úr kassanum þá þýðir það hinsvegar ekki að gömul flugvél sé eitthvað verri og óöruggari en til að kryfja hugtakið „aldur flugvéla“ þá þarf að hafa nokkrar staðreyndir á hreinu.

Höfuðstöðvar ICAO í Kanada

Hefur aldur flugvélar eitthvað með flugöryggi að gera?

Í fyrsta lagi þá hefur aldur flugvéla ekkert með flugöryggi að gera þar sem að öryggið ræðst af viðkomandi flugrekstaraðila sem í mörgum tilvikum fer eftir landsvæðum í heiminum.

Hvert land þarf að uppfylla ströng skilyrði er kemur að flugöryggi í þeim tilgangi að fá að fljúga til Evrópulanda eða til Bandaríkjanna en í vanþróaðri löndum og í sumum heimshlutum hafa lönd ekki fengið að fljúga til vestrænna landa þar sem öryggismál í viðkomandi landi hafa ekki uppfyllt þær kröfur sem Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) setur.

Til eru flugfélög sem fljúga nýjum þotum og eru aðeins tveggja ára gamlar en fá samt ekki að fljúga til Bandaríkjanna meðan næsta land við fær að fljúga 25 ára gamalli flugvél til Bandaríkjanna án athugasemda.

Ástæðan er sú að sum lönd uppfylla ekki öryggiskröfur sem snúa að ýmsum atriðum og þar á meðal viðhaldi flugvéla en 2 ára gömul flugvél í rekstri hjá einu flugfélagi í tilteknu landi er mun óöryggari til flugs en 20 ára gömul flugvél í flota flugfélags sem uppfyllir öll skilyrði.

45 slösuðust er Boeing 737-800 þota frá Lion Air fór út af braut í Balí árið 2013 en vélin var ekki tveggja ára gömul

Margir vita að aldur bíla skiptir máli og gamalt raftæki á borð við sjónvarp bilar oftar en nýtt sjónvarp og eru sumir sem bera saman slíka hluti við flugvélar og telja að þetta sé sama fyrirbærið.

Sérfræðingar í flugmálum hafa margir bent á að flugvél getur flogið í marga áratugi ef hún hefur fengið reglulegt viðhald á tilsettum tíma og þá hafa sumir bent á að ekkert flugslys hafi átt sér stað þar sem orsökin var rakin til aldur vélarinnar á meðan viðhaldið var í góðu lagi.

Ítarlegar viðhaldsskoðanir tryggja flugöryggi óháð aldri

Engin flugvél fær að hefja sig á loft nema hún hafi farið í skoðun á tilsettum tíma og að viðhald vélarinnar sé í lagi en ef svo væri þá myndi það samt ekki breyta því að bilun getur gert vart við sig vegna skorts á viðhaldi þrátt fyrir að um 2 ára flugvél sé að ræða.

Stjórnklefi á Airbus A320 þotu í C-skoðun

Flugvélar gangast undir nokkrar tegundir skoðana sem eru misjafnlega umfangsmiklar en þær stærstu fara fram á 2 ára fresti og í slíkum skoðunum er skipt um marga hluti í flugvélinni en um er að ræða svokallað C-skoðun sem tekur allt að tvær vikur.

Enn umfangsmeiri er D-skoðun sem fer fram á 6 ára fresti þar sem viðkomandi flugvél er nánast tekin öll í sundur en um er að ræða svo viðamikla og dýra skoðun að mörg flugfélög nota tækifærið og skipta einnig um sæti og farþegarýmið um borð.

Á 7 ára fresti má segja að lítið er eftir af flugvélinni sem telst vera upprunalegt frá því hún kom úr verksmiðjunni og tæknilega getur flugfélag flogið viðkomandi flugvél eins lengi og félagið vill hafa hana í flotanum.

Í öllum tilvikum þá verður flugvél óhagstæð fyrir félagið sökum aldurs áður en hún nær því að vera óörugg vegna aldurs þar sem viðamiklar skoðanir eru dýrkeyptar fyrir flugfélög á sama tíma og nýrri vélar eru sparneytnari.

Skimað eftir málmþreytu á einkaþotu með sérstökum búnaði

Hægt er að skipta um alla parta á flugvél nema skrokkinn sjálfan en hann er það eina sem eldist og þarf að hafa eftirlit með ástandi hans þar sem málmþreyta getur myndast með tímanum eftir mörg ár í notkun.

Aldur ekki metinn í árum - heldur fjölda flugferða

Aldur flugvélar er ekki metinn í árum en þess í stað er farið eftir hversu oft farþegarýmið hefur verið þrýstingsjafnað.

Í hvert skipti sem farþegaþota flýgur flugleið þá þarf að þrýstingsjafna farþegarýmið áður en hún nær vissri flughæð og afþrýstingsjafna aftur fyrir aðflug en slíkt eykur álag á skrokk vélarinnar með tímanum.

Flugvélar sem fljúga langar leiðir eru því í betra ástandi en þær vélar sem fljúga mjög stuttar vegalengdir þar sem þær hafa flogið mun fleiri ferðir gegnum árin þar sem farþegarýmið hefur gengið oftar í gegnum þrýstingsjöfnun.

Aldur flugvéla er metin út frá því hversu margar lendingar vélin hefur að baki

Verkfræðingar hjá Boeing telja að eftirlit með málmþreytu eigi að hefjast þegar flugvél nær því að hafa flogið 60.000 flugferðir frá því vélin var smíðuð.

„Flugvél sem hefur flogið flestar flugferðirnar í gegnum árin til fjarlægra áfangastaða getur verið í flughæfu ástandi í yfir 25 ár“, segir John Petrakis hjá bandarískum flugmálayfirvöldum (FAA). - „Það eru til farþegaþotur sem eru enn í góðu standi og eru að fljúga sem eru orðnar 30 ára“.

Þegar vissum aldri er náð er byrjað að skima eftir örsmáum sprungum sem geta myndast með árunum í einingum í búk vélarinnar til að fyrirbyggja málmþreytu en slíkt er einnig gert við vængi vélanna.

Ekki vitað til að bilanir tengjast aldri flugvéla

Daglega koma upp nokkur atvik þar sem upp kemur bilun um borð í farþegaflugi þar sem í sumum tilvikum þarf flugvél að lenda óvænt á leiðinni en þrátt fyrir það eru gamlar flugvélar ekki í meirihluta og bilanir eru einnig algengar í nýjum flugvélum sem voru smíðaðar fyrir örfáum árum síðan.

Þann 28. febrúar sl. eru skráð 6 atvik í farþegaflugi á vefsíðunni avherald.com þar sem bilun kom upp en aðeins ein flugvél af þeim sem biluðu var smíðuð fyrir árið 2000 meðan þrjár flugvélar voru innan við 3 ára gamlar sem biluðu á þessum degi.

Með þessu er ekki átt við að nýjar flugvélar séu bilanagjarnari heldur er verið að benda á að bilanir orsakast ekki út frá aldri vélarinnar sjálfrar heldur öðrum þáttum sem geta snúið að viðhaldi, verklagi flugvirkja á ákveðnum tímapunkti eða hönnun vélarinnar sem er þó sjaldgæfara.

Splunkuný Boeing 777 þota kemur til baka úr tilraunaflugi á Paine Field í Seattle

Allar farþegaþotur eru afhentar úr verksmiðjum samkvæmt þeim teikningum sem hönnunardeildir framleiðenda kveða á um og hafa þær gengið í gegnum þrotlausar prófanir undir eftirliti frá flugmálayfirvöldum í samráði við aðrar stofnanir og fær engin farþegi að fara um borð í flugvélar áður en þær hafi fengið úthlutað flughæfnisvottun.

Þá fær flugfélag ekki að starfa ef það hefur verið staðið að því að hafa flogið flugvél áfram án þess að hafa fært hana til skoðunar á tilsettum tíma.

Strangar kröfur tryggja öryggi flugvéla

Að viðhalda því að flugvél fljúgi eins hún var smíðuð er í höndum flugfélaganna sem fá ekki leyfi til reksturs nema að uppfylla ströng skilyrði og því væri of löng og langsótt leið í að flugvél myndi bila sökum aldurs þegar flugfélag þarf að uppfylla allar þær kröfur á undan til að halda starfsemi sinni gangandi.

Þótt margir séu meðvitaðir um hversu mikið öryggi er í farþegaflugi í dag þá eru færri sem gera sér virkilega grein fyrir því hversu margar og miklar öryggiskröfurnar eru - Það miklar að sum flugfélög standa frammi fyrir miklum erfiðleikum þegar athugasemd er gerð vegna einstakra atriða.

Það er ekki að ástæðulausu að 24 ára gömul flugvél hefur flogið í öll þessi ár en slíkur líftími bendir til þess að viðhaldið hefur verið í góðu lagi og vélinni hefur verið flogið af færum flugmönnum og á slík flugvél alveg mörg ár eftir svo lengi sem eftirlit með ástandi hennar og viðhald heldur áfram að vera gott en oftast enda þær vélar í flugvélakirkjugörðum fyrir þann tíma þar sem flugfélög fjárfesta oftast í sparneytnari vélum.

First Class um borð í gamalli Boeing 747 júmbó-þotu British Airways

Farþegar eru ekki óöruggari hvort sem þeir fljúga með 2 ára, 7 ára, 18 ára eða 22 ára gamalli flugvél en ef þeir kjósa meiri vellíðan þá eru þeir betur settar í flugvél sem hefur þægilegri sæti um borð, meira fótapláss og ekki skemmir fyrir afþreyingarkerfi eða þráðlaust internet til að stytta sér stundir.

Ef farþegar eru að spá í öryggi þá skiptir meira máli hvaða flugfélag á í hlut, frá hvaða landi það er og hvaða orðspor viðkomandi félag hefur áunnið sér því eins árs gömul flugvél í flota flugfélags í Indónesíu getur verið óöruggari en 22 ára gömul flugvél í flota British Airways þrátt fyrir að viðkomandi farþegi muni án efa í 99.9999 prósent tilvika komast heill á húfi á leiðarenda í báðum vélunum.

Hvenær er flugvél orðin of gömul?

Eins og fólk og annað í þessum heimi þá eldast flugvélar og meira að segja flugmenn spyrja sig að því hvenær er flugvél orðin of gömul til að fljúga.

Auðvelda svarið er að flugvél er orðin of gömul þegar kostnaður við að halda vélinni í flughæfu ástandi er orðin dýrari en andvirði vélarinnar sjálfrar og hagstæðara er að festa kaup á nýrri vél.

Þegar flugfélag hættir með flugvél og finnur ekki nýjan kaupanda þá enda þær margar í eyðimörkinni þar sem þær fara í brotajárn

Málmþreyta og tæring á málmi er þó eitthvað sem hrjáir flestallar flugvélar og sérstaklega þær sem fljúga í röku loftslagi en það eru þó alltaf til undantekningar er kemur að aldri sem fer eftir mörgum þáttum og svo eru aðstæður öðruvísi er kemur að kostnaði ef um einkaflugvél er að ræða eða flugvél í áætlunarflugi.

Því eldri sem flugvél verður þá þarf hún að gangast oftar í gegnum skoðun sem þýðir að hún eyðir meiri tíma á jörðu niðri á meðan ný flugvél eyðir meiri tíma í háloftunum að fljúga farþegum sem hafa borgað fyrir flugfarið sem skilar flugfélaginu tekjum.

Til eru margar Douglas DC-3 vélar sem eru enn að fljúga þrátt fyrir að vera komnar á áttræðisaldurinn en það gefur til kynna að eigendur þeirra véla hafa varið miklum fjármunum í að halda þeim flughæfum og er þá oft um að ræða flugklúbba eða samtök.

Forsendurnar fyrir aldri eru þó aðrar í farþegaflugi þar sem verð á þotueldsneyti og sparneytni skiptir flugfélögin öllu máli og er því hagstæðast að fljúga vélum sem eyða minna og eru hagkvæmari sem er ástæða þess að flugfélög panta nýjar vélar og hætta með flugvélar sem eiga mörg ár eftir.

Þannig getur lágt olíuverð valdið því að flugfélag ákveður að halda lengur áfram með gamla flugvél, en um leið og olíuverðið hækkar myndi flugfélagið mögulega leita sér að nýrri og sparneytnari flugvélum.

  fréttir af handahófi

Icelandair kaupir Boeing 737 MAX flughermi

16. febrúar 2017

|

Icelandair hefur gert samning um kaup á nýjum flughermi sem mun bætast við þann hermi sem félagið er nú þegar með í notkun við þjálfun flugmanna á Flugvöllunum í Hafnarfirði.

Boeing fékk pantanir í 668 þotur árið 2016 - Náðu ekki takmarkinu sínu

10. janúar 2017

|

Boeing náði ekki takmarki sínu árið 2016 sem var að fá pantanir í 740 flugvélar en alls voru 668 þotur pantaðar frá flugvélarisanum á seinasta ári eða 72 vélum færri en það sem stefnt var að.

Fyrsta Boeing 737 MAX 9 verður frumsýnd 7. mars

2. mars 2017

|

Boeing hefur ákveðið dagsetningu fyrir frumsýningu á Boeing 737 MAX 9 þotunni en fyrsta eintakið af þessari þotu, sem er lengri útgáfa af Boeing 737 MAX, verður ýtt úr skýli í Renton þann 7. mars næs

  Nýjustu flugfréttirnar

Alaska Airlines mun „ættleiða“ yfir 60 Airbus-þotur frá Virgin

30. mars 2017

|

Alaska Airlines mun ekki lengur geta státað sig að vera einungis með Boeing 737 þotur í flota sínum eins og félagið hefur gert hingað til.

WOW air pantar sjö þotur - Þar á meðal fjórar A330-900neo

30. mars 2017

|

WOW air hefur pantað sjö nýjar farþegaþotur af gerðinni Airbus sem munu bætast á næstu misserum við flotann.

Flugmaður hjá American Airlines lést skömmu fyrir lendingu

30. mars 2017

|

Flugmaður lést í stjórnklefa á farþegaþotu hjá American Airlines í gær er vélin var í aðflugi þegar nokkrar mínútur voru í lendingu.

30.000 feta hæðartakmark á A320neo vegna galla í hreyflum

30. mars 2017

|

Stjórn indverska lágfargjaldafélagsins GoAir hefur beðið þá flugmenn, sem fljúga nýju Airbus A320neo þotunum, að halda sig í lægri flughæð í farflugi, sem er í 30.000 fetum, til að minnka álag á Pra

Fyrsta Boeing 747-400 þotan nú til sýnis á Delta flugsafninu

29. mars 2017

|

Delta Air Lines vígði í gær sýningu á fyrstu Boeing 747-400 júmó-þotu í heimi sem nú er til sýnis á Delta Flight Museum safninu í Atlanta en vélin var smíðuð árið 1988.

Röng úthlutun á hliði olli rýmingu í Leifsstöð

29. mars 2017

|

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli var nú seinnipartinn í dag rýmd af öryggisástæðum vegna mistaka sem átti sér við afgreiðslu á flugvél sem var að koma frá Grænlandi.

Brasilískt flugfélag greiðir ættbálki í Amazon bætur vegna flugslyss árið 2006

29. mars 2017

|

Brasilískt flugfélag hefur fallist á að greiða ættbálki á Amazon-svæðinu 138 milljónir króna í skaðabætur eftir að flugvél hrapaði á þorp þeirra fyrir 11 árum síðan eftir að tvær þotur rákust saman y

Boston Logan fær fyrsta áætlunarflugið með Airbus A380

29. mars 2017

|

Logan-flugvöllurinn í Boston tók sl. sunnudag við fyrsta risaþotufluginu þegar Airbus A380 þota British Airways lenti eftir flug frá London Heathrow.

EASA mun nota nýja aðferð við gerð áhættumats í flugöryggi

29. mars 2017

|

Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) segir að á þessu ári verði kynnt nýtt kerfi við að meta áhættu í öryggismálum í flugi en hingað til hefur flugslysatíðni oftast verið reiknuð út frá fjölda slysa og

Fleiri lágfargjaldafélög um Heathrow með þriðju brautinni

29. mars 2017

|

Stjórn Heathrow-flugvallarins gerir ráð fyrir að geta boðið fleiri lágfargjaldafélög velkomin þegar þriðja flugbrautin verður tilbúin og komin í notkun.