flugfréttir

Tólf flugslys um helgina í heiminum

- 57 látnir í níu banvænum flugslysum

6. ágúst 2018

|

Frétt skrifuð kl. 14:22

Flest flugslysanna áttu sér stað í Bandaríkjunum og í Sviss

Óvenju mörg flugslys hafa átt sér stað í heiminum um Verslunarmannahelgina en samkvæmt skráningu þá hafa frá föstudeginum 3. ágúst til sunnudagsins 5. ágúst alls 12 flugslys átt sér stað og af þeim voru 9 banvæn slys þar sem alls 57 manns létu lífið.

Í öllum flugslysunum var um einkaflug og borgaralegt flug að ræða þar sem flugvélategundir af gerðinni DHC-2 Beaver, Extra EA-400, American Champion 8GCBC Scout, Steen Aero Lab Skybolt, Socata TB-10 Tobago, Junkers Ju-52 og Cessna 414 komu við sögu auk þyrlu, loftbelgs og gyrocopter loftfars en engin slys urðu í farþega- og áætlunarflugi.

Föstudagurinn 3. ágúst 2018

Einn lét lífið er gírókopter af gerðinni Autogyro hrapaði til jarðar í Frakklandi nálægt bænum Saint-Nazaire-de-Pézan við Montpellier við strendur Miðjarðarhafsins. Einn var um borð sem lét lífið en fram kemur að eldur hafi komið upp í gírókopterinu fyrir brotlendinguna.

Loftbelgur í harðri lendingu

Tveir slösuðust er loftbelgur kom harkalega niður í lendingu í Connecticut í Bandaríkjunum á föstudagsmorgninum en annar þeirra slösuðu lést skömmu síðar af sárum sínum. Um borð í loftbelgnum voru 11 manns. 9 farþegar og tveir flugmenn.

Laugardagurinn 4. ágúst 2018

DHC-2 Beaver flugvél saknað í Alaska

Leit stendur enn yfir af flugvél af gerðinni de Havilland DHC-2 Beaver frá K2 Avaition sem saknað hefur verið frá laugardeginum í Alaska sem fór í loftið frá Talkeetna í útsýnisflug um Denali-þjóðgarðinn.

Flugvélin sem saknað hefur verið er af gerðinni DHC-2 Beaver

Flugmaður vélarinnar tilkynnti í gervihnattarsíma um að hann hefði brotlent í fjalllendi með fjóra farþega en skömmu síðar rofnaði símasambandið. Neyðarsendir fór í gang sem gaf björgunarsveitum upplýsingar um staðsetninguna en erfiðlega hefur gengið að fljúga að slysstaðnum sökum skýja sem hylja svæðið.

Fram kemur að flugvélin sé útbúin björgunarbúnaði í neyð á borð við svefnpoka, eldavélahellu, potti, matvælum og sjúkrakassa. Ekki er vitað um afdrif þeirra sem voru um borð í vélinni að svo stöddu en gert er ráð fyrir að björgunarlið komist að flugvélinni í dag.

Lítil herflugvél fórst í Dóminíska Lýðveldinu

Einn lét lífið er kennsluflugvél af gerðinni ENAER T-35B Pillan á vegum flughersins í Dóminíska Lýðveldinu fórst við eftirlitsflug nálægt landamærum landsins og Haítí á laugardagsmorgun. Tveir voru um borð og lést annar þeirra í slysinu.

Fimm létust í flugslysi í Oklahoma

Enginn komst lífs af er sex sæta flugvél af gerðinni Extra EA-400 fórst skömmu eftir flugtak frá flugvellinum í Ponca City í Oklahoma sl. laugardag.

Um borð í flugvélinni voru þrír fullorðnir og tvö börn

Fram kemur að vélin hafi verið nýfarin í loftið er hún missti hæð og brotlenti í um 145 kílómetra fjarlægð norður af Oklahoma City. Um borð voru þrír fullorðnir og tvö börn og komst enginn lífs af úr slysinu.

Þau sem voru um borð í vélinni höfðu flogið til Ponca City til að snæða morgunverð sem haldinn er einu sinni í mánuði á vegum stjórnar flugvallarins.

Brotlenti skömmu fyrir flug með auglýsingaborða

Lítil stélhjólsflugvél af gerðinni American Champion 8GCBC Scout brotlenti á akri nálægt bænum Foley í Alabama í Bandaríkjunum sl. laugardag.

Fram kemur að flugvélin hafi verið að reyna að krækja í auglýsingaborði sem til stóð að fljúga með en skyndilega kom upp bilun í mótor.

Flugmaðurinn sendi út neyðarkall en vélin brotlenti skömmu síðar. Flugmaður og einn annar, sem var með honum í vélinni, voru úrskurðaðir látnir er björgunarlið kom á staðinn.

Tvær listflugvélar skullu saman við æfingu í Rúmeníu

Tvær listflugvélar skullu saman á flugi í Rúmeníu á laugardag með þeim afleiðingum að annar flugmaðurinn lét lífið.

Báðar flugvélarnar voru af gerðinni Steen Aero Lab Skybolt og voru vélarnar að æfa listflug þegar þær flugu á hvora aðra.

Listflugvélarnar sem skullu saman voru báðar af gerðinni Steen Aero Lab Skybolt

Annar flugmaðurinn sem lést var 60 ára en hinn var 53 ára og var hann fluttur lífshættulega slasaður á sjúkrahús.

Flugvélarnar voru að æfa sýningaratriði fyrir flugsýninguna Suceava Air Show 2018 sem til stóð að færi fram á næstunni en henni hefur verið aflýst vegna slyssins.

Fjögurra manna fjölskylda lést í flugslysi í Sviss

Fjórir létu lífið er flugvél af gerðinni Socata TB-10 Tobago fórst í skóglendi í fjallshlíð í Sviss á laugardag. Um borð í flugvélinni var fjölskylda; móðir, faðir og tvö börn og komst enginn lífs af í slysinu.

Fjölskyldan var á leið frá Kägiswil í Sviss til Frakklands

Flak vélarinnar varð alelda í skóginum og þurfti að slökkva eldinn fyrst áður en hægt var að hefja björgunaraðgerðir.

Fjölskyldan fór í loftið á laugardagsmorgninum frá flugvellinum í Kägiswil í Sviss og var stefnan tekin á Frakkland. Ekki er vitað um orsök slyssins sem er nú til rannsóknar.

18 létust er þyrla fórst í Síberíu

18 manns létust er þyrla af gerðinni Mil Mi-8AMT á vegum UTair brotlenti í Krasnoyarsk-héraði í Síberíu í Rússlandi á laugardag.

Þyrlan fór í loftið frá Vankor-flugvellinum nálægt bænum Igarka á svipuðum tíma og önnur þyrla sömu gerðar sem var með frakt í togi en þyrlan sem fórst rakst utan í fraktina er hún fór of nálægt og brotlenti í um 2 kílómetra fjarlægð frá flugvellinum og varð alelda.

Um borð í þyrlunni voru þrír í áhöfn og 15 olíuvinnslustarfsmenn á vegum fyrirtækisins Rosnef og komst enginn lífs af.

Hin þyrlan sleppti fraktinni til jarðar og lenti en engann sakaði um borð í þeirri þyrlu.

Gömul Junkers-flugvél fórst í svissnesku Ölpunum

Gömul flugvél frá tímum seinni heimstyrjaldarinnar af gerðinni Junkers Ju-52 brotlenti í 2.540 metra hæð í fjallshlíð í Ölpunum í Sviss á laugardag.

Flugvélin fór í loftið frá bænum Locorno í Sviss og var förinni heitið til Dübendorf flugvallarins, skammt austur af Zurich.

20 manns voru um borð í flugvélinni sem fórst í hlíðum Alpanna í Sviss

Fram kemur að flugvélin hafi steypst næstum lóðrétt til jarðar á miklum hraða. Um borð í flugvélinni voru 20 manns. Þrír í áhöfn og 17 farþegar og komst enginn lífs af úr slysinu.

Flugvélin var í eigu fyrirtækisins Ju-Air sem á og rekur lítinn flota af Junkers-flugvélum sem allar voru smíðaðar á fjórða áratug síðustu aldar.

Slysið er það mannskæðasta um helgina og annað flugslysið sem átti sér stað í Sviss.

Þá áttu sér stað önnur tvö flugslys á laugardeginu, eitt í Alaska og annað í Argentínu þar sem allir komust lífs en í báðum tilvikunum var um fisflugvélar að ræða.

Sunnudagurinn 5. ágúst 2018

Enginn komst lífs af er tveggja hreyfla einkaflugvélar af gerðinni Cessna 414 brotlenti á bílastæði við verslunarmiðstöð í Santa Ana í Los Angeles í gær.

Flugvélin fór í loftið frá Concord-Buchanan flugvellinum, skammt norðvestur af San Francisco í gær, og var förinni heitið til John Wayne flugvallarins í Santa Ana.

Flugvélin brotlenti á bílastæði við Staples Supercenter verslunarmiðstöðina

Flugvélin var í aðflugi að flugvellinum þegar flugmaðurinn sendi út neyðarkall en skömmu síðar missti vélin hæð og brotlenti hún á bílastæði við Staples Supercenter verslunarkringluna. Vélin lenti á einum bíl sem var mannlaus á bílastæðinu en eigandi bílsins var inni í verslunarkringlunni.

Fimm manns voru í vélinni; einn flugmaður og fjórir farþegar og komst enginn lífs af en meðal farþegar voru starfsmenn frá fasteignasölu í San Francisco.







  fréttir af handahófi

  Nýjustu flugfréttirnar

Icelandair staðfestir pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur

6. júlí 2023

|

Icelandair hefur staðfest pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur en um er að ræða staðfestingu á samkomulagi er flugfélagið gerði í apríl í vor við Airbus.

Hefja rannsókn á endurfjármögnun SAS í kóvidinu

5. júlí 2023

|

Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins ætlar að hefja rannsókn á þeirri endurfjármögnun sem sænska og danska ríkið gerði á rekstri SAS í heimsfaraldrinum og skoða hvort að öllum reglugerðum og lögum ha

Tólf slösuðust um borð eftir mikla ókyrrð

4. júlí 2023

|

Að minnsta kosti 12 manns slösuðust í mikilli ókyrrð um borð í breiðþotu frá Hawaiian Airlines sl. föstudag er þotan var á leið frá Hawaii til Ástralíu.

Air Atlanta Europe leigir tvær 777-300ER til Saudia

4. júlí 2023

|

Air Atlanta Europe tók nýlega í notkun tvær Boeing 777-300ER breiðþotur sem fyrirtækið hefur áframleigt til Saudia.

Þota frá Delta lenti með nefhjólið uppi í Charlotte

28. júní 2023

|

Farþegaþota frá Delta Air Lines lenti án nefhjóls á Charlotte/Douglas í Norður-Karólínu í dag.

Airbus gerir samning um þróun á eldsneyti úr etanóli

28. júní 2023

|

Airbus hefur hafið samstarf við fyrirtækið LanzaJet um að hraða þróun og vottun á sjálfbæru eldsneyti sem vonast er til þess að geti leyst af hólmi þörf fyrir hefðbundið þotueldsneyti á næstu árum.

Skortur á flugumferðarstjórum vestanhafs veldur áhyggjum

28. júní 2023

|

Eftirlitsmaður samgönguráðuneytis Bandaríkjanna hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur að skortur á flugumferðarstjórum á vegum bandarískra flugmálayfirvalda (FAA) sé áhyggjuefni sem þarf að taka

Pólsk farþegaþota flaug óvart inn í úkraínska lofthelgi

26. júní 2023

|

Pólsk farþegaþota frá flugfélaginu Enter Air fór óvart inn í úkraínska lofthelgi um helgina þegar flugmenn vélarinnar voru að sneiða hjá þrumuveðri.

Vinna að því að stytta biðtíma fyrir vottanir og skráningar

23. júní 2023

|

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) ætla sér að stytta biðtíma eftir skráningum flugvéla og útgáfu vottanna með því að einfalda ferlið og ná með því niður þeirri bið sem viðgengist hefur.

Fækka fraktþotum enn frekar vegna dvínandi eftirspurnar

23. júní 2023

|

Vöruflutningarisinn FexEx ætlar að kyrrsetja enn fleiri fraktflugvélar sökum tapreksturs auk þess sem rekstrartekjur fyrirtækisins hafa dregist töluvert saman auk þess sem að eftirspurn eftir fraktf

 síðustu atvik

  2023-01-17 12:00:00

  • 1 JAN

    United

      - Hjólabúnaður

  • 1 JÚL

    Tajik Air

      - Þrýstingsjöfnun

  • 1 JAN

    SWISS

      - Veðurratsjá

  vinsælast síðustu 7 daga