flugfréttir

Robert Starr og kapphlaupið um minnstu flugvél í heimi

- Flugvélin sem átt ekki að geta flogið samkvæmt flugeðlisfræðinni

27. janúar 2018

|

Frétt skrifuð kl. 10:00

Nokkrir flugvélasmiðir reyndu að spreyta sig með smíði á minnstu flugvél heims

Þrátt fyrir næstum ekkert vænghaf þá á undarlegan hátt gat hún flogið og það alla leið inn á síður Heimsmetarbókar Guinness - Flugvél sem fáir áttu von á að gæti hafið sig á loft.

Bumble Bee II var á sínum tíma minnsta flugvél heims sem var skilgreind sem smæsta flugvél sem gat hafið sig á loft með mann innanborðs og skildi engan undra að sú vél tók aðeins einn flugmann - Í rauninni er vélin enn skráð sem sú minnsta samkvæmt Heimsmetabókinni í dag.

Það getur verið erfitt að skilgreina hvað er „minnsta flugvél heims“ þar sem hægt er að taka með í reikninginn ýmiskonar loftför með vængi sem fljúga með flugmann áhangandi eða um borð eins og svifvængur með mótor en hér er því talað um hefðbundna flugvél sem drifin er áfram með mótorafli.

Robert Starr og Bumble Bee I um miðjan níunda áratuginn

Sumar fjarstýrðar flugvélar eru allt að tvöfalt sinnum stærri en Bumble Bee II sem var ein af þeim pínulitlu flugvélum sem smíðaðar voru en þær fyrstu litu dagsins ljós á fimmta áratugnum sem allar voru heimasmíðaðar.

Baby Bird, Sky Baby og Wee Bee voru heimasmíðaðar flugvélar sem gerðar voru í einskonar samkeppni um smíði á minnstu flugvél heims sem braust út meðal nokkurra flugvélasmiða.

Wee Bee var ein sú fyrsta í röðinni en þeirri flugvél var flogið af þremur flugvélasmiðum; Ken Coward, William Chana og Karl Montijo sem komu frá San Diego. Vélin var 4.2 metrar á lengd með 5.5 metra vænghaf sem þykir ekki svo smágert í dag en vélin var með 30 hestafla mótor og vó 90 kíló með flugmann og eldsneyti.

Flugvélasmiðurinn Ray Stits kom næstur á svið og gerði enn smærri flugvél sem var kölluð „Stits Junior“ sem var aðeins 3.4 metrar á lengd og skömmu síðar kom Wilbur Staib, verkfræðingur frá Los Angeles, sem taldi sig geta smíðað enn minni flugvél en Stits Junior.

Flugvélin „Stits Junior“ árið 1951

Wilbur Staib smíðaði flugvél sem hann kallaði „Little Bit“ sem var einnig 3.4 metrar á lengd og hafði aðeins 2.3 metra langt vænghaf en vélin hóf sig þó aldrei á loft og var talið að hún væri ekki nógu örugg til að láta á reyna.

Tilraun Staib var þó hvatning fyrir fleiri til þess að spreyta sig og steig Ray Stits aftur á stokk í samstarfi við Robert Starr og smíðuðu þeir í sameiningu vélina Sky Baby snemma á sjötta áratugnum sem var stuttvængja tvíþekja sem var innan við 3 metrar á lengd og með vænghaf upp á 2.1 metra.

Ray Stits og Sky Baby flugvélin - Í gamla daga og í dag á safni

Vélin kom með 65 hestafla Continental C-65 mótor og flaug Starr vélinni á nokkrar flugsýningar sem haldnar voru sumarið 1952 í Bandaríkjunum en vélina má finna í dag á AirVenture-flugsafninu í Oshkosh í Wisconsin.

Sky Baby var minnsta flugvél heims á sínum tíma og átti hún heimsmetið til upphaf níunda áratugarins þegar annar hönnuður vélarinnar, Robert Starr, smíðaði „Bumble Bee“ tvíþekjuna.

Robert Starr er hann flaug Bumble Bee I fyrsta flugið þann 28. janúar árið 1984

Robert Starr byrjaði að smíða Bumble Bee árið 1979 og var vélin fimm ár í smíðum en vélin var 2.9 metrar á lengd, með vænghaf sem var aðeins 2 metrar og flaug vélin sitt fyrsta flug þann 28. janúar árið 1984.

Heimsmetabók Guinness skráði vélina sem minnstu flugvél heims og bætti Starr þar með sitt eigið heimsmet eftir Sky Baby vélina en Bumble Bee náði 156 hnúta hraða sem samsvarar 290 km/klst hraða.

Aðeins 5 mánuðum síðar, eða í ágúst árið 1984, kom Donald Stits, sonur Ray Stits, fram á sjónarsviðið með flugvélina „Baby Bird“ sem var hávængja flugvél og endurheimti hann titilinn af Robert Starr og föður sínum.

Donald Stits, sonur Ray Stits, flaug Baby Bird vélinni nokkrum sinnum
frá 1984 til 1989

Baby Bird var þó lengri en Bumble Bee en hafði þó mun minna vænghaf sem var aðeins 1.9 metrar og flaug vélin sitt fyrsta flug þann 4. ágúst árið 1984. Flugmaðurinn Harold Nemer flaug vélinni 35 flugferðir áður en hún var sett á hilluna árið 1989.

Starr taldi sig geta gert enn betur

Nokkur ár liðu og gafst Robert Starr ekki upp því hann taldi sig geta gert enn betur með ennþá smærri flugvél en Baby Bird og smíðaði hann nokkrum árum síðar vélina „Bumble Bee II“.

Robert Starr flaug Bumble Bee II fjórum árum síðar en það kostaði hann
næstum því lífið

Smíði þeirrar vélar lauk árið 1988 og var vélin með 20 sentimetrum styttra vænghaf en Baby Bird og mældist það 1.7 metrar og þá mældist lengdin á Bumble Bee II 2.7 metrar og var hún því 70 sentimetrum styttri en Baby Bird.

Bumble Bee II kom með 85 hestafla mótor sem gerði vélinni kleyft að ná 165 hnúta hraða sem samsvarar 305 km/klst.

Fyrsta flugið var jafnframt það seinasta

Bumble Bee II flaug sitt fyrsta flug þann 8. maí árið 1988 en það var einnig seinasta flugið. Robert Starr flaug vélinni og fór hann nokkur yfirflug til að sýna viðstöddum fram á að hún gæti flogið í þeim tilgangi að vélin kæmist í Heimsmetabók Guinness en sú tilraun kostaði Starr næstum lífið.

Í 400 feta hæð kom upp bilun í mótornum á Bumble Bee II sem féll beint til jarðar og var vélin gjörónýt og slasaðist Starr alvarlega í slysinu. Hann náði sér þó að fullu og náði fullum bata þrátt fyrir að vera komin á sjötugsaldur.

Til að koma í veg fyrir frekari tilraunir í kapphlaupinu um minnstu flugvél heims ákvað Heimsmetabók Guinness að verðlauna bæði Ray Stitts og Robert Starr en þó í sitthvorum flokknum.

Bumble Bee II á Prima Air & Space Museum safninu í Tucson í Arizona

Baby Bird var skráð sem minnsta flugvél heims með einum væng á meðan Bumble Bee II var skráð sem minnsta tvíþekja heims.

Þrátt fyrir að Bumble Bee II gjöreyðilagðist í slysinu þá er upprunalega Bumble Bee vélin til í dag á Pima Air & Space Museum safninu í Tucson í Arizona en Robert Starr gaf safninu vélina árið 1990.

Robert Starr í viðtali árið 1988

Samt sem áður þá er Bumble Bee II í dag skráð sem minnsta flugvél heims sem getur borið flugmann eða farþega samkvæmt Heimsmetabók Guinness.

Hver var Robert Starr?

Það eru ekki margir sem vita hver Robert Starr var en hann eyddi mestum tíma ævi sinnar ofar skýjum eða með höfuðið þar að minnsta kosti.

Robert H. Starr var fæddur árið 1924. Hann flaug meðal annars herflugvélum í seinni heimstyrjöldinni en eftir stríðið flaug hann um loftin blá á vélum á borð við Curtiss P-40 Warhawk, Piper Cub, North American F-86 Sabre fyrir Flying Tigers í Kína auk þess sem hann var tilraunaflugmaður fyrir ýmsar tegundir af heimasmíðuðum flugvélum.

Mestur var áhuginn hjá Starr fyrir heimasmíðuðum flugvélum sem er talin hafa verið kveikjan að því að hann fór út í að smíða eins litlar flugvélar og hægt var.

Það skildu fáir hvernig Bumble Bee gat haldist á lofti vegna þess hversu stutta vængi vélin hafði sem líktist frekar stubbi fyrir festingar fyrir væng. Robert Starr sagði í viðtali árið 1988 að samkvæmt nokkrum flugvélaverkfræðingum þá töldu þeir að flugvélin gæti aldrei flogið - Þrátt fyrir það þá flaug hún samt.

Ekki er fullvitað hvort Robert H. Starr sé enn á lífi en samkvæmt heimildum þá er sagt að hann hafi látist árið 2009, 85 ára að aldri.

Bumble Bee II flýgur fyrsta og síðasta flugið 8. maí árið 1988







  fréttir af handahófi

  Nýjustu flugfréttirnar

Icelandair staðfestir pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur

6. júlí 2023

|

Icelandair hefur staðfest pöntun í allt að 25 Airbus A321XLR þotur en um er að ræða staðfestingu á samkomulagi er flugfélagið gerði í apríl í vor við Airbus.

Hefja rannsókn á endurfjármögnun SAS í kóvidinu

5. júlí 2023

|

Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins ætlar að hefja rannsókn á þeirri endurfjármögnun sem sænska og danska ríkið gerði á rekstri SAS í heimsfaraldrinum og skoða hvort að öllum reglugerðum og lögum ha

Tólf slösuðust um borð eftir mikla ókyrrð

4. júlí 2023

|

Að minnsta kosti 12 manns slösuðust í mikilli ókyrrð um borð í breiðþotu frá Hawaiian Airlines sl. föstudag er þotan var á leið frá Hawaii til Ástralíu.

Air Atlanta Europe leigir tvær 777-300ER til Saudia

4. júlí 2023

|

Air Atlanta Europe tók nýlega í notkun tvær Boeing 777-300ER breiðþotur sem fyrirtækið hefur áframleigt til Saudia.

Þota frá Delta lenti með nefhjólið uppi í Charlotte

28. júní 2023

|

Farþegaþota frá Delta Air Lines lenti án nefhjóls á Charlotte/Douglas í Norður-Karólínu í dag.

Airbus gerir samning um þróun á eldsneyti úr etanóli

28. júní 2023

|

Airbus hefur hafið samstarf við fyrirtækið LanzaJet um að hraða þróun og vottun á sjálfbæru eldsneyti sem vonast er til þess að geti leyst af hólmi þörf fyrir hefðbundið þotueldsneyti á næstu árum.

Skortur á flugumferðarstjórum vestanhafs veldur áhyggjum

28. júní 2023

|

Eftirlitsmaður samgönguráðuneytis Bandaríkjanna hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur að skortur á flugumferðarstjórum á vegum bandarískra flugmálayfirvalda (FAA) sé áhyggjuefni sem þarf að taka

Pólsk farþegaþota flaug óvart inn í úkraínska lofthelgi

26. júní 2023

|

Pólsk farþegaþota frá flugfélaginu Enter Air fór óvart inn í úkraínska lofthelgi um helgina þegar flugmenn vélarinnar voru að sneiða hjá þrumuveðri.

Vinna að því að stytta biðtíma fyrir vottanir og skráningar

23. júní 2023

|

Bandarísk flugmálayfirvöld (FAA) ætla sér að stytta biðtíma eftir skráningum flugvéla og útgáfu vottanna með því að einfalda ferlið og ná með því niður þeirri bið sem viðgengist hefur.

Fækka fraktþotum enn frekar vegna dvínandi eftirspurnar

23. júní 2023

|

Vöruflutningarisinn FexEx ætlar að kyrrsetja enn fleiri fraktflugvélar sökum tapreksturs auk þess sem rekstrartekjur fyrirtækisins hafa dregist töluvert saman auk þess sem að eftirspurn eftir fraktf

 síðustu atvik

  2023-01-17 12:00:00

  • 1 JAN

    United

      - Hjólabúnaður

  • 1 JÚL

    Tajik Air

      - Þrýstingsjöfnun

  • 1 JAN

    SWISS

      - Veðurratsjá

  vinsælast síðustu 7 daga